Hér höfum við algjörlega dásamlega skyrtertu sem inniheldur engar mjólkurvörur né egg.
Skyrtertan er virkilega mjúk og afar bragðgóð. Hún er ekki of sæt heldur fá öll hráefnin að njóta sín. Kakókexbotninn kemur með gott mótvægi við jarðaberja og hvíttsúkkulaði skyrkökudeiginu. Einstalega ljúffeng og vel heppnuð skyrterta sem ég held að þú eigir eftir að elska.
Uppskrift og myndir frá Lindu Ben
180g hafrakrex
20g kakó
40g smjör (jurtasmjör eða smjörlíki)
250ml jurta þeytirjómi (Linda notar alpro)
300g hafraskyr með jarðarberjabragði frá Veru Örnudóttur
200g vegan hvítt súkkulaði (Linda notar Happi)
6 matarlímsblöð
Fersk jarðarber
1. Bræðið smjörið og myljið kexið í matvinnsluvél. Blandið smjörinu saman við kexið og kakóið.
2. Smyrjið 20 cm smelluforms hring (ekki botninn) og klæðið með smjörpappír. Setjið smelluformshringinn í miðjuna á kökudisk og þrýstið kexblöndunni ofan á diskinn, setjið í frystinn á meðan kakan er græjuð.
3. Þeytið rjómann og blandið jarðaberjaskyri saman við.
4. Bræðið hvítt súkkulaði og blandið því saman við skyrblönduna.
5. Leggið matarlímsblöðin í kalt vatn þar til þau eru orðin mjúk (sækjið botninn í frystinn á meðan). Setjið matarlímsblöðin í lítinn pott þegar þau eru orðin mjúk og bræðið þau við vægan hita. Hellið líminu út í skyrdeigið og blandið strax saman við. Hellið yfir kexbotninn og sléttið úr deiginu. Setjið inn í fyrsti í u.þ.b. 3-4 klst eða lengur.
6. Skreytið kökuna með jarðaberjum.