
Hindberja og súkkulaði skonsur eru 1000asta uppskriftin inn á lindaben.is!
Ég þurfti alveg að double tékka áður en ég póstaði þessu til að vera viss um að þetta væri örugglega rétt.
Mér finnst svo stutt síðan ég byrjaði með þessa uppskriftasíðu. Þá með stóra drauma um að reka góða síðu sem gagnaðist fólki vel, á sama tíma og hún myndi gleðja augað. Mér finnst því hálf ótrúlegt að það sé komið að þessum stóra áfanga.
Ég vildi að 1000asta uppskriftin væri alveg í mínum anda. Bragðgóð, einföld, svolítið djúsí, nokkuð fljótleg og auðvitað gleðja augað líka í leiðinni.
Þess vegna deili ég með ykkur þessum hindberja og súkkulaði skonsum sem uppfylla allt þetta, en þar að auki eru þær ofnæmisvænar þar sem þær innihalda engin egg né mjólkurvörur og eru því vegan. Það geta því flest allir notið þess að fá sér hindberja og súkkulaðiskonsur að tilefni þessa áfanga.
Núna þegar uppskriftirnar eru orðnar þetta margar, væri gaman að heyra hvaða uppskrift er mest í uppáhaldi hjá þér. Eða ef þér langar að segja mér hvernig uppskriftir þú værir til að sjá meira af, þá myndi ég vera svo þakklát.
Njótið vel!
Uppskrift og myndir frá Lindu Ben.


Innihaldsefni
-
240 g hveiti
1 tsk matarsódi
1 msk möluð hörfræ (hægt að setja 1 msk af hörfræjum í blandara og blanda þar til þau verða möluð)
125 g sykur
120 g kókosolía (köld/hörð)
170 g hafra jógúrt með hindberjum og sítrónu frá Veru Örnudóttir
2 dl frosin hindber
Börkur af 1 sítrónu
100 g dökkt súkkulaði
Aðferð
-
- Kveikið á ofninum og stillið á 200°C, undir og yfir hita.
- Setjið hveiti, matarsóda, möluð hörfræ og sykur í skál. Blandið saman.
- Setjið kókosolíuna út í skálina og blandið saman, gott að nota hrærivél eða hendurnar hér til að ná öllu saman, en passið að kókosolían bráðni ekki, blandan á að vera nokkuð þurr og kornótt.
- Bætið hafrajógúrtinu út í og blandið öllu saman.
- Bætið frosnum hindberjum út í og sítrónuberki, skerið súkkulaðið niður, bætið því út í og blandið saman við.
- Setjið svolítið af hveiti á borðið, setjið deigið á borðið og klárið að hnoða öllu saman þar og myndið stóra bollu úr deiginu. Fletjið svolítið úr henni og notið spaða eða hníf til að skera bolluna í 6 sneiðar.
- Setjið smjörpappír á ofnplötu og raðið sneiðunum á plötuna. Bakið inn í ofni í u.þ.b. 25 mín eða þar til skonsurnar verða gullinbrúnar.
